GET IN TOUCH

Aldrei of seint að byrja!


Wendy Ida, 66 ára og Ernestine Shepherd, 82 ára. Wendy byrjaði 43 ára gömul að hreyfa sig og Ernestine ekki fyrr en hún var 56 ára

Hvað er að vera hraustur og hvað er að vera heilbrigður? Er hægt að halda sér í líkamlega góðu formi alla æfi? Hvenar á að hætta að lyfta lóðum og setjast í helgan stein?


Það er ekkert einfalt svar við þessu. Í mínum huga er hreysti ekki það sama og heilbrigði. Heilbrigður einstaklingur er einhver sem borðar vel og er í þokkalegu ásigkomulagi líkamlega. Hann getur verið aðeins of þungur, aðeins of léttur, lítill, stór o.s.frv. Hann verður sjaldan veikur og ef hann færi í blóðprufur og almenn check up fengi hann fínar niðurstöður. Blóðþrýstingurinn væri t.d. undir 130 í efri mörkum og neðri mörkin undir 85 og hvíldar púlsinn væri í kringum 70 slög á mínútu. Nokkuð gott right?

Heilbrigði fæst ekki í töfluformi

Hreysti hinsvegar, já nú vandast málið. Hreysti er líkamlegt- og andlegt ásigkomulag. Hraustur einstaklingur hleypur 5 km, syndir og lyftir lóðum. Hann býr til tíma fyrir líkamsrækt, hugsar um mataræðið og passar upp á að fá nægan svefn. Hraust manneskja og heilbrigð manneskja er ekki það sama. Heilbrigði er normið, hreysti er eitthvað sem við ættum öll að sækjast eftir. Sjáðu til, hraust manneskja er á mikið betri stað en heilbrigð manneskja. Ef við sendum hrausta manneskju í blóðprufur og check up hjá lækni fær hún allt aðrar niðurstöður en sú heilbrigða. Blóðþrýstingurinn væri mun lægri og væri sjálfsagt á bilinu 100-110 yfir 60-65 og hvíldarpúlsinn sirka 35-65 slög á mínútu. Blóðprufurnar myndu allar koma mun betur út og hrausti einstaklingurinn mikið betur í stakk búin til að takast á við lífið ef eitthvað óvænt kæmi upp á. (Zombie apocalypse anyone?)

Svo let's get real. Þegar við eldumst hrakar líkamlegu ásigkomulagi okkar, þetta er normal og kallast hrörnun eða bara að eldast, kemur fyrir besta fólk.

Nú ætlum við alla leið í straw man líkingum. Segjum sem svo að við séum með tvo einstaklinga, báðir 30 ára. Annar er hraustur en hinn heilbrigður. Eftir 10 ár er sá heilbrigði líklegast komin með hærri púls, hærri blóðþrýsting og þarf jafnvel að passa upp á kólesterólið sitt. Beinin gætu verið orðin aðeins viðkvæmari, Hann er farin að bæta á sig nokkrum kg-um, úthald og styrkur hefur minnkað. Ef við bætum 10 árum við til viðbótar þá er ekki ólíklegt að viðkomandi sé komin í efri mörk blóðþrýstings og púls. Hann þarf jafnvel að vera undir reglubundnu eftirliti enda komin sextugs aldurinn, það þykir jú alveg eðlilegt að fólk rétt komið yfir fimmtugt láti tékka reglulega á sér og enn eðlilegra þykir okkur að sjá smá bjórvömb eða ömmulega bingóvöðva.

Hreyfing eykur lífsgæði

Hrausti einstaklingurinn aftur á móti er enn með flottar tölur og fyrir neðan normið, af hverju? Jú því hans normal ástand var mun betra heldur en ástand hins heilbrigða. Hrörnun líkamans tekur lengri tíma því líkamlegt ástand hans var það gott. Blóðþrýstingurinn er enn innan eðlilegra marka þó hann hafi hækkað aðeins, beinin eru sterk og vöðvarnir sterkir en ekki eins afkastamiklir og áður. Jú, hann hleypur aðeins hægar og tekur ekki lengur 200 kg í réttarstöðulyftu en annars er hann enn ímynd hreystis og heilbrigðis.

Líkamlegt ásigkomulag vekur athygli og fólk gapir þegar það heyrir að hann sé rétt skriðin yfir fimmtugt, komin á sextugs aldurinn.
Það er aldrei of seint að byrja, þú ert aldrei of feit/feitur, of gömul/gamall, of heilsulítil/heilsulítill fyrir líkamsrækt. Líkamsrækt eykur lífsgæði

Við viðhöldum náttúrulegri hreyfigetu líkamans með því að nota hann. Við gerum hnébeygjur svo við getum sest niður og staðið upp alla okkar æfi. Við gerum þær aftur og aftur. Þyngjum jafnvel hreyfinguna með lóðum og þegar loksins kemur að því að vinir okkar geta ekki sest á gólfið til að leika við barnabörnin eða staðið sjálf upp af klósettinu þá erum við enn að setjast niður og standa upp með lóð á bakinu.

Það þýðir þó ekki að þeir sem finna nú þegar fyrir hrörnun sökum aldurs geti ekki spyrnt við núna. Ó nei, ballið er ekki búið fyrr en þú drepst.

Við það eitt að drattast af stað í líkamsræktina geta lífsgæðin aukist til muna. Blóðþrýstingur gæti farið lækkandi sem og hvíldar púls. Vöðvarnir styrkjast og með markvissri líkamsrækt er hægt að öðlast aftur fyrri hreyfigetu sem tapast hefur vegna hreyfingarleysis. Þrekið skánar um leið og þú reynir á lungun og almenn heilsa fer strax batnandi.

Ef þú ert í þeirri stöðu að geta ekki sest á gólfið og leikið við barnabörnin, nú eða bara börnin þín, þá er ekki of seint að bæta úr því. Einhverstaðar verða allir að byrja og að hunskast af stað í göngutúr 1x á dag í 30 mín er frábær leið til að byrja.
Ræktin er ekki bara fyrir húðflúraða töffara með ljósakort í rassvasanum

Ræktin er ekki bara fyrir húðflúraða töffara með ljósakort í rassvasanum, ræktin er líka fyrir ömmur og afa, langömmur og langafa. Líkamleg heilsa og hreysti ætti að vera normið okkar en ekki bara heilbrigði.