GET IN TOUCH

Kúrar virka ekki


Það hafa allir skellt sér í megrun og ætlað í eitt risastórt átak. Við byrjum af kappi, ætlum sko að negla þetta og hellum okkur út í enn einn kúrinn. Fyrst gengur vel, svo gengur ekki eins vel og loks áttum við okkur á því að það eru liðnir 6 mánuðir síðan við byrjuðum í átakinu. Við erum löngu hætt að mæta í ræktina, orðnir styrktaraðilar sem láta ekki sjá sig og mataræðið löngu farið út um þúfur. Við förum á vigtina, klórum okkur í kollinum og skiljum ekki alveg hvernig við gátum þyngst um 5 kg, við sem vorum í átaki og vorum ógeðslega dugleg.


Rannsóknir benda þess að aðeins örfáir geti haldið út stífar megrunir og kúra. Flestir hætta á fyrstu tveim mánuðunum. Þeir sem halda út lengur en það missa nokkur kíló en oftast endar fólk á að bæta á sig því sem það missti og jafnvel meira til.

Boð og bönn í mataræði


Málið er að flestir kúrar boða og banna mat. Við megum ekki borða brauð, glútein, unnar matvörur, baunir, dýraafurðir, súkkulaði, sykur, nammi, kartöfluflögur, sætar kartöflur, sósur, krydd. Bannað að drekka gos, fá sér bjór eða vínglas og guð forði þér frá því að njóta uppáhalds súkkulaðisins. Ég hef meira að segja heyrt af svo extreme kúr að þú máttir ekki tyggja matinn þinn. No joke, fólk sem fer á þann kúr borðar súpur í öll mál og borðar u.þ.b. 800 hitaeiningar á dag, sem er langt fyrir neðan það sem við ættum að borða.


Þér á eftir að mistakast


Það er ekkert gaman að borða súpur í öll mál og það er ekki eitthvað sem nokkur maður heldur út til. Maður stendur sig kannski vel fyrst og sér kílóinn fjúka af en hvað gerist eftir 6 mánuði? 12 mánuði? 3 ár? Ég get sagt þér það.

Allir sem fara á kúra hætta á þeim. Kúrar eru tímabundnir, þeir endast ekki og hjálpa þér ekki neitt. Kúrar mistakast.

Og þegar kúrarnir mistakast fáum við samviskubit, við feiluðum big time, verðum fúl og svekkt og skiljum ekki af hverju í anskotanum við getum ekki bara haldið planinu.


Það skiptir ekki máli þó þú farir á sama kúrinn aftur og aftur og aftur. Þú átt ekki eftir að endast á honum alla ævi, þú átt eftir að fá þér kolvetni, þú átt eftir að borða súkkulaði, njóta kökunar og fá þér pizzu. Megrunar kúrar og trikk virka ekki. Mér er sama þó það sé low fat, low carb, djúsar, kaffi sem á að auka brennslu, te sem á að breyta þér svan eða mittisþjálfi sem þú svitnar í og átt þar að leiðandi að geta brætt af þér kviðfituna. Þetta er ekkert nema góð markaðsherferð og virkar ekki til lengdar.


Hvað virkar?

Borðaðu mat. Ekki máltíðar sjeika sem eiga að koma í staðin fyrir mat, ekki töfrasúpur eða bara holla fitu. Ekki skera út kolvetni og henda fituríkum vörum í ruslið. Hættu að gera mat að vondum kalli sem geri þig feitann ef þú svo mikið sem vogar þér að þefa af honum.

Gerðu þér grein fyrir því að allt er gott í hófi. Borðaðu hollan mat í 80% tilfella, leyfðu þér nammi, gos, kökur, bjór- eða vínglas stöku sinnum.

Við ættum að njóta þess að borða hollan mat, matur þarf ekki að vera leiðinlegur og vondur. Prófaðu þig áfram, skoðaðu pintrest fyrir hollar uppskriftir. Búðu til plan og leyfðu þér að njóta þess á milli.

Þurrar kjúklingabringur, hrískökur, leiðinlegt kalt salat og hrísgrjón eru ekki lausnin! Horfðu út fyrir kassann og víkkaðu skilgreinungu þína á hollum mat!


Grilluð steik með grænmeti, sætum kartöflum, kaldri grill sósu úr jógúrti/skyri eða sýrðum rjóma er sjúklega góð, enda matur.

Kjúklingur með hrísgrjónum, karrýsósu úr möndlusmjöri og kókosmjólk, rótargrænmeti og fersku salati fær fullt hús af stigum.


Harðfiskur, epli og bananar með möndlusmjöri er algjört sælgæti. Þeyttu saman skyr og banana, skelltu smá rjóma út á og lúkufylli af bláberjum. Prófaðu að elda eggin þín aðeins öðruvísi. Grillaðu grænmetið og kryddaðu með hvítlauksalti, prófaðu nýja hluti og leyfðu þér að njóta þess að borða mat.

Þú átt ekki að banna þér að borða mat, stjórnaðu heldur hvenar þú færð þér sætindi.

Byggðu mataræðið þannig upp að þú borðar hollan mat flest alla dag og nýtur svo súkkulaði molans þess á milli, samviskubitslaus.