GET IN TOUCH

Veikindi, ósýnilegir sjúkdómar og hreyfing


því miður eru alveg ótrúlega margir að kljást við veikindi og sjúkdóma sem sumir hverjir sjást ekki utan á fólki. Það er oft mjög erfitt fyrir þann sem er að takast á við heilsubrest að hugsa sér að hreyfing sé að fara að laga eitthvað og hvað þá heldur að fara að gefa manni meiri orku í daglegu lífi. Þess þó heldur hugsa margir að það muni frekar taka frá þeim þá litlu orku sem það hefur (Ég veit að ég hugsaði það allavega) Ofan á þetta kemur að díla við fordóma, bæði sína eigin og annara. Ef þú ert að takast á við sjúkdóm eða veikindi þá veistu hvað það getur dregið mikið úr manni, suma daga meira en aðra. Ég get ekki talað fyrir aðra en mig langar aðeins að segja frá því hvernig hreyfing hefur hjálpað mér bæði líkamlega og andlega, hvernig ég tekst á við erfiða daga og tímabil, mína eigin fordóma og annara gagnvart sjúkdómunum mínum og hvernig ég passa upp á hugarfarið og minni mig á afhverju ég er að stunda reglulega hreyfingu.

Ég er með vefjagigt og endometríósu. Þessir sjúkdómar draga verulega úr lífsgæðum mínum og ég á marga daga í mánuði þar sem ég er með mikla verki og þeim fylgir mikil síþreytu. Mér fannst mjög erfitt að gera hreyfingu part af minni vikulegu rútínu vegna þess að til að byrja með var ég með klikkaðar harðsperrur og fann ekki þetta sem mér fannst allir vera að segja : „æfingarnar gefa mér svo miklu meiri orku!“ Ég fann það ekki fyrr en ég var búin að æfa reglulega í 3-4 vikur. Það magnaða við líkamann er að þegar við hreyfum okkur þá losar hann efnið endorfín og fyrir mig sem er að takast á við daglega verki er það frábært því endorfín hefur áhrif á staði í heilanum sem draga úr skynjun á sársauka. Æfingar bæta blóðflæði sem sendir næringarríkt blóð til staða þar sem ég finn til og dregur því úr sársauka. Endorfín bætir skapið og kemur í veg fyrir streitu og þunglyndi.

Húrra fyrir endorfíni!

Endómetríósa er knúin áfram af estrógeni. Með því að hreyfingu lækkar estrógenið í líkamanum og það hjálpar til við að halda einkennum niðri. Ég fór að finna fyrir miklum breytingum hjá mér bæði líkamlega og andlega eftir að ég byrjaði að stunda crossfit. Ég byrjaði að hreyfa mig því ég var óheilbrigð, andlega veik, óörugg, óánægð og leið ekki vel í eigin skinni. Í dag mæti ég á æfingar því mér líður betur þegar ég hreyfi mig, vegna þess að það bætir heilsu mína og svo finnst mér það ótrúlega skemmtilegt. Þetta er orðið ómissandi partur af rútínunni og ég gæti ekki hugsað mér að sleppa því að mæta á æfingu þegar ég get og hef heilsu til.


Hugarfarið þegar ég á erfiða daga og tímabil :

Veikindi mín valda því að ég þarf mjög reglulega að taka stuttar eða langar pásur frá æfingum, hægja verulega á mér eða scale-a æfingar sem ég gat auðveldlega gert fyrir nokkrum vikum síðan t.d. minnka þyngdir verulega eða gera auðveldari æfingar þegar líkaminn er ekki upp á sitt besta. Stundum líður mér eins og ég sé að taka tvö skref áfram og eitt aftur á bak. Og það er eiginlega svolítið mikið þannig þegar maður er ekki með 100% heilsu og er með líkama sem ekki er hægt að stóla á og vitið þið hvað ? Það er bara allt í lagi. Það tekur mig kannski lengri tíma að ná tökum á ákveðnum æfingum eða ég sé árangurinn ekki eins fljótt og aðrir en með því að gera mér grein fyrir takmörkunum mínum þá er ég mikið sáttari við sjálfa mig og er ekki að miða mig við aðra. Ég geri alltaf mitt allra besta á æfingum hverju sinni og það er nóg fyrir mig að vita það. Þrátt fyrir þetta þá er ég að sjá mikinn árangur og bætingar í crossfit. Ég er "consistent" og mæti alltaf þegar ég get og læt það ekki stoppa mig eða draga úr mér þegar ég get ekki mætt. Ég beinu huganum að því sem gengur vel og tem mér jákvætt hugarfar. Það gerir allt svo miklu auðveldara.


Mínir eigin fordómar og annara gagnvart veikindum mínum :


Ég missti því miður getuna til að vinna vegna veikinda minna. Þegar ég þurfti að taka veikindafríi frá vinnu þa fann fyrir mismiklum skilningi yfirmanna og fékk að finna fyrir miklum fordómum. Ég var sjálf að takast á við mína eigin fordóma gagnvart því að vera orðin svona mikið veik aðeins 27 ára gömul, með ósýnilegan sjúkdóm sem fæstir hafa heyrt talað um og horfast í augu við það að verða óvinnufær. Ég fann fyrir miklum ótta og kvíða. Fyrrum samstarfsfélögum mínum fannst það af einhverjum ástæðum mjög mikilvægt að láta yfirmenn vita að ég væri að mæta í ræktina. Ég var svo beðin um að svara fyrir það og sagt að þetta "liti svo illa út" þrátt fyrir að ég væri með læknisvottorð og var að hreyfa mig samkvæmt læknisráði. Ég þurfti virkilega að vinna í því að passa uppá mig og standa með sjálfri mér. Því miður er bara til allt of mikið af fólki sem sýnir því engan skilning að fólk veikist og þarf að takast á við líkamlega og andlega sjúkdóma og nei, það sést ekki alltaf utan á fólki hvað er að.

Ég veit að ég "lít ekki út fyrir að vera veik" en veistu, mér er bara orðið alveg um hvað aðrir telja sig vita um mig og baktal. Ég vona að þessir aðilar þurfi ekki að upplifa það að missa heilsuna.

Að vera óvinnufær, búin að missa heilsuna með ólæknandi sjúkdóm sem mun líklegast bara versna er ekki óska staðan fyrir mig, rétt 28 ára gömul. Ég vildi að ég væri nógu heilbrigð til að gera allt, en það er bara ekki þannig því miður. Í dag er ég í endurhæfingu og partur af henni felst einmitt í því að ég nái líkamlegu heilbrigði og hreyfingin sem ég stunda er crossfit. Ég hef náð miklum árangri síðan ég byrjaði að æfa í ágúst 2016 þrátt fyrir veikindi, erfiðar uppákomur í mínu persónulega lífi og allavega áskoranir. Það hefur hjálpað mér mikið að vera í góðu líkamlegu formi þegar það kom að því að ná mér eftir aðgerðir og ég jafnaði mig fljótt. Crossfit hefur gert mig hrausari og sterkari að öllu leiti. Miklu sterkari en ég hélt að ég gæti nokkurn tímann orðið! Fólkið sem ég æfi með er er yndislegt. Þau hvetja mann alltaf áfram og þegar ég er að eiga glataðan dag, en mæti samt á æfingu, þá fer ég alltaf brosandi heim. Ég veit ekki hvernig sjúkdómarnir mínir munu þróast eða hvort mér muni líða betur eða verr. Það verður að fá að koma í ljós. Þangað til mun ég halda mínu jákvæða hugarfari, gera mitt besta, horfa raunsætt á sjálfa mig, ekki berja mig niður eða bera mig saman við annað fólk.Ég mæti á æfingar fyrir mig og mína vellíðan.


Ég stjórna hugsunum mínum og kýs að hafa þær jákvæðar.


Ég geri alltaf mitt besta en veit mín takmörk.


Ég vil sýna öðrum að það er hægt að gera magnaða hluti og ná miklum árangri í hreyfingu þrátt fyrir veikindi.


Neikvætt umtal og skilningsleysi annars fólks hefur ekkert með mig að gera.